Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:34:40 (5099)

2002-02-26 15:34:40# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það voru margar fullyrðingar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði í frammi áðan. Hann virtist hafa miklar fregnir af því að stjórn Byggðastofnunar væri óstarfhæf og ég vísa því algerlega á bug. Hún er vel starfhæf og var fundur í síðustu viku, mjög góður og gagnmerkur fundur þar sem mörg og merkileg mál voru afgreidd.

Ég held að ég hafi heyrt það rétt að hv. þm. hafi nefnt að byggðakvótanum væri úthlutað varanlega. Svo er ekki. Honum er úthlutað á hverju ári. Varðandi þessa þáltill. ræddi hann að ekkert samráð hefði verið haft við Byggðastofnun. Það er ekki rétt. Bæði formaður og varaformaður áttu sæti í þeirri nefnd sem bjó til tillöguna og kynningarfundur var haldinn í stjórn Byggðastofnunar um þáltill. Að sjálfsögðu eru ekki allir sammála um alla hluti. Fyrr mætti aldeilis vera. Við erum 63 þingmenn í þessum sal og við erum auðvitað ekki sammála um alla hluti, og ekki einu sinni þó að við séum í sama flokki. Þó að það sé ekki nema tveggja manna flokkur trúi ég ekki öðru en að þeir séu stundum ósammála, þeir hv. þm. sem þar sitja, hvað þá Vinstri grænir sem eru sjö, að þeir ... (GAK: ... stóru ... litlu.) Við höfum miklar áhyggjur af bæði stórum og smáum en auðvitað hafa menn sínar skoðanir og það er sjálfsagt að leyfa hverjum og einum að hafa skoðun sína í friði.