Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:41:22 (5103)

2002-02-26 15:41:22# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. að nauðsynlegt sé að verða við þeirri áætlun ríkisstjórnarinnar að byggja upp menningarhús vítt og breitt um landið, eins og talað hefur verið um. En lesa mátti það af orðum hv. þm. áðan að hann hefði verið á móti því að flytja Byggðastofnun til Sauðárkróks, þingmaðurinn sem gjarnan talar um að flytja þurfi stofnanir af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Hann talaði líka með ákveðinni lítilsvirðingu um að byggðarlög væru farin að vinna að eigin byggðaáætlun. Ég tel það mjög jákvætt ef landshlutabundin svæði taka sig saman til að gera eigin byggðaáætlun og að sjálfsögðu á ríkið að styðja það framtak. Ég tel það jákvætt.

Á sama hátt hef ég fylgst með atvinnuþróunarfélögum, t.d. Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands sem er eitt af fyrstu atvinnuþróunarfélögunum sem var stofnað. Þar er unnið mikið og gott starf. Auðvitað vantar enn þá meiri peninga inn í þennan geira. Það er alveg ljóst. En við megum ekki tala þannig eins og við, ríkisvaldið, eigum að færa þetta allt saman út á landsbyggðina án þess að heimamenn komi að því. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að byggja upp grunninn heima fyrir og ríkisvaldið á síðan að koma að því að styrkja það starf. Það er alveg ljóst því að allt sem hefur komið af himnum ofan og verið sett út á landsbyggðina þar sem fólkið hefur varla verið tilbúið til að taka við slíkri starfsemi hefur bara farið á hausinn. Þess vegna er nauðsynlegt að byggja upp þetta innra starf heima fyrir og ríkisvaldið á síðan að koma að styrkingu þess.

Hv. þm. talaði um háskólanám og ég kem að því í seinni hluta andsvars míns.