Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:45:38 (5105)

2002-02-26 15:45:38# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tekur ansi djúpt í árinni þegar hann segir að ég hafi verið að mæra tillögur ríkisstjórnarinnar um menningarhús. Ég sagði að ég gæti tekið undir það með hv. þm. að full ástæða væri til að standa við þau loforð og þær fyrirætlanir um menningarhús sem talað var um. Það er alveg óþarfi hjá hv. þm. að snúa út úr því sem ég er að tala um.

Hv. þm. sagði líka að í þessum tillögum mætti lesa að einungis yrði háskóli á Akureyri. Ég bendi hv. þm. á að það er háskóli á Bifröst í Borgarfirði, háskóli er á Hvanneyri, það er sérhæfður háskóli á Laugarvatni og við erum að byggja upp fjarkennslu vítt og breitt um landið þannig að fólk geti numið í heimabyggð sinni. Það er alveg óþarfi að snúa því öllu við sem verið er að tala um hér. Þetta mætti og gæti verið enn betra en það er en það er alveg óþarfi að snúa þessu öllu á haus.