Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:04:49 (5109)

2002-02-26 16:04:49# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir ljómandi innlegg í umræðuna. Hann kom víða við. Ég verð að segja að sá kafli ræðunnar sem fjallaði um flutning opinberra stofnana var sérstaklega athyglisverður og er rétt að vekja athygli á honum.

Herra forseti. Sá kafli vakti líka sérstaka athygli mína vegna þess að mér þótti hv. þm. tala miklu skýrar en ég finn nokkurs staðar sagt frá í texta þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að hv. þm. segi okkur hvernig staðan er í hans ágæta þingflokki. Við fengum að heyra það áðan að í þingflokki Sjálfstfl. hefur a.m.k. einn hv. þm. fullkominn fyrirvara varðandi tillöguna og stuðning við hana.

Fram hefur komið, eins og vakin hefur verið athygli á áður, að m.a. formaður þingflokks Framsfl. sem þó sat í verkefnisstjórninni hefur gert ýmsar athugasemdir við það sem hér liggur fyrir. Mér þótti hv. þm. a.m.k. á köflum nokkuð gagnrýninn, eða eigum við að segja að hann hafi talað skýrar en hér hefur komið fram. Það er eðlilegt að leggja fyrir hann þá spurningu, vegna þess að ef ég man rétt er hv. þm. varaformaður þingflokks Framsfl. og þar af leiðandi starfandi þingflokksformaður í dag þar sem þingflokksformaður er fjarverandi, hvort það sé líka þannig í þingflokki Framsfl. að þar séu ýmsir þingmenn einnig með fyrirvara og jafnvel fullkominn fyrirvara á þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir.