Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:09:55 (5113)

2002-02-26 16:09:55# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir ræðu hans. Hún var prýðileg fyrir allra hluta sakir. Hann nálgaðist málið á þann hátt sem ég held að við getum öll verið sammála um. En þar stendur hnífurinn í kúnni: Hvernig á að fara að því að leiðrétta það sem allir eru sammála um að hafi farið úrskeiðis?

Ég vil spyrja hv. þm., hvað varðar úrlausnir, hvort hann átti sig ekki á því sem hefur verið að gerast í samfélaginu, samfélagsbreytingum á opinberum vettvangi, að þær eru að stórum hluta orsök þess sem hefur verið að eiga sér stað. Til dæmis sjávarútvegsstefnan. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann átti sig ekki á því, en að mínu mati, búandi úti á landi, er það alls ekki rétt að fólk vilji ekki vinna í fiski. Það flýr öryggisleysið en alls staðar á landsbyggðinni þar sem stöndug fyrirtæki eru með fiskvinnslu og fólk hefur trú á er nóg framboð af fólki heima fyrir til að vinna fiskinn.

Þeirri framsetningu, að fólk vilji vera í nútímalegum samfélögum vísa ég líka algerlega á bug. Öll fjölskylda mín, öll systkini mín eiga heima norður á Dalvík og í Svarfaðardal. Við viljum búa þar á eigin forsendum og teljum okkur nútímaleg á eigin forsendum. Þess vegna held ég að það sé voðalega erfitt, virðulegi forseti, að nálgast hlutina á þennan hátt. Grunnþjónustan þarf að vera í lagi og gefa fólki tóninn um að það geti fengið að vera á eigin forsendum á stöðunum. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann geti ekki verið sammála mér um að það sé ein meginforsendan.