Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:28:57 (5120)

2002-02-26 16:28:57# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það hefði verið framleitt nóg af pappír og að við hefðum ekki látið verkin tala. Þetta heyrum við ár eftir ár og áratug eftir áratug í umræðum um byggðamál. Það er svo ósköp auðvelt að segja svona. Hv. þm. sagði líka að það væri ekki góð reynsla af fyrri áætlun en ég minni á að samt gekk ansi margt eftir af því sem þar var sett fram. Ég minni á stóraukin framlög til jöfnunar námskostnaðar, stóraukin framlög til jöfnunar húshitunarkostnaðar, fjarkennslu og stórátak í samgöngumálum. Talað var um fjölgun opinberra starfa og eitthvað um flutning stofnana. Að vísu hefði mátt gera meira af því en ég minni þó á að Byggðastofnun var flutt til Sauðárkróks þó það fengi ekki góðar undirtektir alls staðar. Þannig er það meira en að segja það að flytja stofnanir.

Ýmislegt hefur verið gert og ýmislegt gengið eftir af því sem ætlunin var að gera. Þetta er ekki eins einfalt og það sýnist. Af hverju halda menn að vandamálið um allan heim sé hið sama og hér, að fólk sé að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar? Vita menn hver þróunin er á Norðurlöndunum og í Evrópulöndum? Ég var í Bandaríkjunum í haust og þar sögðu menn mér að flutningur fólks úr hinum dreifðu byggðum til stórborganna væri meiri nú en nokkurn tíma fyrr. Menn höfðu af þessu miklar áhyggjur og kunnu ekki almennilega á því skýringar hvers vegna þróunin væri svona þar. En menn eru að glíma við þetta alls staðar, eiginlega um allan heim. Auðvitað spyrjum við okkur: Af hverju er fólk að flytja?

Fyrir tveimur, þremur árum var gerð ítarleg könnun af Stefáni Ólafssyni prófessor, fyrir Byggðastofnun. Þar vó þyngst einhæfni atvinnulífsins, að meiri fjölbreytni vantaði í atvinnulífið. Það er auðvitað annað sem hefur breyst að ungt fólk fer til náms. Það vill koma heim aftur en þar eru kannski ekki störf fyrir það. Einnig hefur það breyst að nú er mjög algengt að bæði kynin fari til náms og þótt annar aðili hjónabands eigi kost á góðu starfi heima í sinni sveit þá er ekki víst að makinn eigi kost á því líka. Þess vegna snýr fólk ekki aftur til æskustöðvanna.