Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:31:13 (5121)

2002-02-26 16:31:13# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að ýmislegt vannst í hinni fyrri áætlun. En ég stend við það að ekki hefur skort pappír og ekki hefur skort hugmyndir og það hefur heldur ekki skort fyrirmynd vegna þess að eins og hv. þm. benti á hafa menn verið að glíma við þennan vanda mjög víða. Árangur okkar hefur hins vegar alls ekki verið viðsættanlegur. Hv. þm. sagði að það hefði mátt gera meira á ýmsum sviðum. Ég tek undir það hjá hv. þm. Þess vegna segi ég að málið er akkúrat fjölbreytni í atvinnulífinu. Eins og hv. þm. benti á kom það m.a. fram í rannsókn Stefáns Ólafssonar og eins aukin tækifæri varðandi menntunina. Við þurfum þess vegna að einhenda okkur í að reyna að ná árangri á þessum sviðum. Þess vegna er eitt það versta við hina fyrri áætlun nákvæmlega það hversu hægt gekk að færa opinber störf, því miður, þó ýmislegt hafi verið fært á því tímabili.

Við skulum ekki gleyma fjarvinnsluverkefnunum. Það mál er með ólíkindum í ljósi allra þeirra væntinga sem ýmsir, bæði hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarliðsins, voru að vekja mjög víða um land. Það er líklega ein mesta sorgarsaga sem við höfum þurft að horfa upp á hversu lítið hefur gengið í þeim efnum vegna þess að þar voru vissulega tækifæri og þetta voru verkefni sem sannarlega skipti ekki máli hvar voru unnin. Meira að segja eru dæmi um það, því miður, að menn hafa verið að færa störf af þeirri gerðinni utan af landi til höfuðborgarsvæðisins, alveg þveröfugt við það sem að var stefnt.