Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:35:22 (5123)

2002-02-26 16:35:22# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. staðfesti það sem áður hafði komið hér fram --- hann notar að vísu örlítið önnur orð en hæstv. iðnrh. --- um að tillögur verkefnisstjórnarinnar hafi breyst töluvert. Það er hárrétt hjá hv. þm. að hæstv. iðnrh. ber ábyrgð á þeim tillögum sem lagðar eru fyrir þingið.

Það er hins vegar mjög athyglisvert sem kemur fram hjá hv. þm., þótt hann taki ekki eins sterkt til orða og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, og gefur vísbendingar um að augljóst er að mikil vinna er fram undan í iðnn. við að ljúka þessari tillögu þannig að hún geti komið hingað til afgreiðslu. Ég vona svo sannarlega að sú meðferð verði til þess að bæta, að sjálfsögðu, það plagg sem hér liggur fyrir því það er mjög mikilvægt. Þetta er vandi sem er hárrétt hjá hv. þm. að er ekkert einfaldur.

Ég tek undir með hv. þm. að því miður er umræðan um þessi mál oft á þeim nótunum að þetta sé mjög einfalt og að til sé t.d. einhver patentlausn varðandi kvóta hér eða kvóta þar. Það er hárrétt hjá hv. þm. að í minni heimabyggð hefur út af fyrir sig ekki skort kvóta sem slíkan. Hann hefur jafnvel aukist. Samt sem áður hefur fólki fækkað. Það er vegna þess að þessi mál eru einmitt ekki svo einföld að þau snúist bara um vinnumagnið. Miklu fleira spilar inn í m.a. fjölbreytileiki í atvinnulífinu. Þess vegna erum við hv. þm. Guðjón Guðmundsson sammála um að það beri t.d. að nýta alla möguleika sem eru til staðar í því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Þess vegna erum við auðvitað báðir stuðningsmenn þess að reist verði álver í Fjarðabyggð því það mun að sjálfsögðu fjölga stoðum undir atvinnulífið þar, auka fjölbreytnina mjög mikið og skapa okkur ný sóknarfæri. Ég hefði að hluta til viljað sjá meiri áherslu lagða á það í þeirri áætlun sem hér er nú til umræðu að menn veltu því fyrir sér hvernig mætti koma til móts við þau sóknarfæri og hvernig hægt væri að stuðla að því að nýta þau sem allra best vegna þess að það er okkur afar mikilvægt að nýta það þannig að eftir t.d. tíu ár verðum við ekki í sömu sporum og nú.