Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:52:28 (5129)

2002-02-26 16:52:28# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. hreinskilin svör og ég met það mikils þegar stjórnarþingmenn koma og tala svo afdráttarlaust eins og hér hefur verið gert. En við skulum hafa það líka í huga að þetta eru ekki mjög góð eftirmæli fyrir hæstv. ríkisstjórn í þessum málaflokki. Og eitt af því sem er í byggðaáætlun núna frá hæstv. iðnrh. er um flutning fjarvinnsluverkefna út á land.

Iðnrh. sagði áðan við spurningum í stuttu andsvari mínu að hún mundi láta verkin tala í þessum efnum. Verkin tala í síðustu byggðaáætlun. Verkin tala í flutningi fjarvinnsluverkefna fyrir árið 2000 sem ég las upp áðan og hv. þm. Drífa Hjartardóttir segir að sér þyki það miður að ekki hafi tekist betur til og að ráðuneytin hafi ekki staðið sig. Fyrir þau hreinskilnu svör þakka ég og segi að það er þá strax í áttina þegar hv. stjórnarþingmenn eru ekki á einhverjum afneitunarbömmer um að allt sé í besta lagi að talað sé um þetta.

Herra forseti. Það var nefnilega í október 1999 sem haldin var töluverð flugeldasýning. Þá var unnin skýrsla á vegum Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og forsrn. um nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni og þá var nú skotið mörgum flugeldum upp á stjörnuhimininn að nú ætti allt að fara að skána. Nú væru þessi mál að fara á miklu betra skrið og komin voru verkefni til þess að flytja út á landsbyggðina í miklum mæli. Árangurinn er eins og ég las upp áðan, því miður ákaflega dapurlegur.