Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:56:28 (5131)

2002-02-26 16:56:28# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005 og mun hún koma til umfjöllunar í hv. iðnn. þar sem ég á sæti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um tillöguna, ég fagna því að hún skuli vera komin fram. Í henni eru ýmsar hugmyndir og skilgreiningar sem við getum sjálfsagt öll verið sammála um og ég vil nálgast þetta verkefni með opnum huga og á jákvæðan hátt. Ég held að við þurfum öll á því að halda að reyna að ná samstöðu um að takast á við þann gríðarlega vanda sem byggðaröskunin í landinu er.

Eftir að hafa hlýtt á umræðurnar í dag verð ég að koma inn á það sem mér finnst vera grunnþættir í sambandi við byggðastefnuna í landinu, vegna þess að verkefni út á land, starfsemi á landsbyggðinni grundvallast náttúrlega á því að grunnþættir, grunnþjónustuþættir samfélagsins séu í lagi og fyrirtækjum og einstaklingum standi til boða að njóta grunnþjónustu sem er skapleg hvað varðar t.d. tækni og verð. En því miður held ég að stóri vandinn í sambandi við byggðaröskunina hér á landi, og þess vegna hefur hún verið svo miklu meiri en kannski aðrar þjóðir hafa horft upp á, er að á síðustu árum höfum við verið að færa atvinnulíf okkar og efnahagskerfi úr félagslega reknu kerfi yfir í hlutafélagavæðingu og síðan einkavæðingu og það sem verst er og mótdrægast landsbyggðinni er að þetta hefur verið gert á síðari árum hvað varðar grunnþjónustu.

Þess vegna er tómt mál að tala um byggðastefnu, finnst mér, nema takast á um það hvaða form á að vera á þeim grunnþjónustuþáttum. Ég segi fyrir sjálfan mig að hvað varðar þau atvinnufyrirtæki og þá einstaklinga sem lifa og hrærast í kringum mig, þá hefur það náttúrlega verið stóráfall t.d. hvernig hefur verið staðið að samgöngumálum. Þá á ég ekki við vegagerð, þar hafa orðið gríðarlegar framfarir, en t.d. hvað varðar siglingar með ströndinni hefur þjónusta dregist saman þar og hún hefur stórhækkað í verði. Þetta hefur náttúrlega gríðarleg áhrif fyrir hinar dreifðu byggðir og er undirstöðuatriði til þess að geta lifað og hrærst, framleitt vöru og komið henni frá sér.

Ég get nefnt annað atriði sem hefur verið gríðarlegt áfall fyrir svo dreifbýlt land eins og Ísland og það var að etja mönnum saman til samkeppni í fluginu, innanlandsfluginu, sem leiddi til þess að bæði félögin átu upp eigið fé og nú er afleiðingin sú sem við horfum upp á, flug aðeins inn á nokkra pósta á gífurlega háu verði. Þetta er grunnþjónusta sem skiptir landsbyggðina öllu og skiptir öllu hvað varðar stofnun fyrirtækja og það að fólk vilji lifa og hrærast á landsbyggðinni.

Sjóflutningarnir og flugið hafa farið yfir í þennan einkavæðingarfasa á allra síðustu árum með ómældum afleiðingum. Vegakerfið er að stofni til í eign ríkisins og þar hefur verið gert átak sem ber að virða.

[17:00]

Það er eins með fjarskiptamál. Eftir hlutafélagavæðingu Símans er þegar farið að bera á minni þjónustu. Þessi þjónusta verður að vera á boðstólum fyrir landsbyggðina, á öllum sviðum ef við eigum að geta byggt upp og látið þau samfélög sem við viljum hafa úti á landi þrífast.

Sama gildir um þjónustu bankanna, Símans og Póstsins. Ég nefni líka Ríkisútvarpið á Akureyri. Hvað eru menn að tala um góðan vilja í tillögum þegar t.d. stöðugildum við útvarpið á Akureyri hefur fækkað úr ellefu niður í sex á allra síðustu árum? Þarna fylgir hugur ekki máli. Og það skrifast algjörlega á ríkisstjórnina sem hefur verið viljalaus að tala fyrir þeim framlögum sem hefði þurft til að efla byggð á þessu svæði.

Og nú stöndum við frammi fyrir sams konar málum í rafmagns- eða orkumálum því að þar er talað um einkavæðingu. Það væri hins vegar vítamínsprauta fyrir landsbyggðina ef við gætum lækkað raforkuverð svo sem afskriftir Landsvirkjunar ganga fram, það fyrirtæki verður skuldlaust á 15 árum. Það er blóðtaka fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni, eins og mjölframleiðsluna, að þurfa að kaupa orkuna á 5 kr. kwst. og upp í 8 kr. þegar verst lætur. Þannig eru staðreyndir málsins og þarna væri hægt að gera alveg gríðarlegt átak. Rarik þjónar hinum dreifðu byggðum með miklu hærra orkuverði en annars þekkist. Þá er ég að bera saman við Reykjavíkursvæðið.

Í umræðunni hefur verið dreginn út sá ásetningur að efla Akureyri sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Auðvitað eru það að mínu mati skínandi góð áform en ég skil í raun og veru ekki af hverju þarf að setja slíkt inn í byggðaáætlun sérstaklega. Akureyri er nú einu sinni þannig sett í krafti stærðar sinnar að ríkisstjórninni væri í lófa lagið að tala máli hennar við fjárlagagerð. Akureyrarkaupstaður er með stór fyrirtæki eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Háskólann á Akureyri. Báðar þessar stofnanir hafa ekki fengið sérstaklega mikil framlög á undanförnum árum. Háskólinn á Akureyri hefur verið með nýframkvæmdir upp á 100 millj. á ári og ég bendi á að á sama tíma og Háskólinn á Akureyri hefur verið byggður upp og hefur gagnast því samfélagi gríðarlega vel er búið að byggja upp einkaháskóla af svipaðri stærð á höfuðborgarsvæðinu án þess að nokkur tali um það, til hliðar við Háskóla Íslands.

Á Akureyri eru verkefni sem má fara í hvenær sem er ef vilji ríkisstjórnarinnar stendur til þess. Dæmi um slíkt eru menningarhús á Akureyri, þjóðvegir í þéttbýli og blómlegt atvinnuþróunarfélag. Tilraunasveitarfélagið Akureyri hefur verið í vandræðum með samskipti við ríkið, ágreiningur er um kostnað og þess háttar svo tugum milljóna skiptir. Auðvitað á að fara í þessi mál sem eru tilbúin undir framkvæmdir. Og ég get nefnt bara sem dæmi að fyrir liggur skýrsla um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem fram kemur að hægt er að auka starfsemi bæklunardeildar sem mundi létta á höfuðborgarsjúkrahúsunum um 20 rúm á ári fyrir tiltölulega lítinn pening. Þetta er allt hægt að gera ef hugur ríkisstjórnarinnar stendur til þess og hún getur talað því máli með framlagi upp á örfá hundruð milljóna króna á ríkisfjárlögum.

Þess vegna er maður svo hræddur um, virðulegi forseti, að sá góði ásetningur sem kemur fram í svona þáltill. frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. séu orðin tóm rétt fyrir kosningar vegna þess að hvað varðar Akureyri hafa sannarlega verið tilefni til að tala máli bæjarins. Þar eru öll tæki og tól fyrir hendi ef ríkisvaldið vill koma að þeim málum með myndarlegum hætti.