Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:14:25 (5138)

2002-02-26 17:14:25# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi hvergi komið fram ef hluti af hálfs milljarðs hagnaði Delta í Hafnarfirði er eitthvað út af fjallagrösum eða hundasúrum. Það er þá eitthvað falið inni í því fyrirtæki sem ég held að fjárfestar og aðrir ættu að skoða.

Herra forseti. Hv. þm. sagði bara stutt og laggott áðan að stóriðjustefna væri ekki á blaði Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það er út af fyrir sig mjög skýr stefna. Ég treysti mér ekki til að loka algjörlega á stóriðjustefnu, það er bara ekki hægt í byggðamálum. Ef vörn á Miðausturlandi verður snúið í sókn með álveri við Reyðarfjörð --- ég hef stundum kallað það svæðisbundna byggðastefnu --- er það hið besta mál að mínu mati, alveg eins og það er hið besta mál hvernig vörn hefur verið snúið í sókn á Eyjafirði með tilkomu háskólans og fleiri stofnana sem þar eru. Það er svæðisbundin byggðastefna. Og ég teldi það líka af hinu góða ef menn skilgreindu Vestfirði með hætti svæðisbundinnar byggðastefnu með því að viðurkenna að þar verði best stuðlað að smábátaútgerð sem Vestfirðingar hafa tileinkað sér og eru snillingar í. Það er líka svæðisbundin byggðastefna. Og ég treysti mér engan veginn til þess að andmæla því og segja að stóriðjustefna sé ekki á dagskrá, að bygging álvers sé bara alls ekki á dagskrá og það sé allt af hinu slæma. Tökum dæmi af Norðuráli í Hvalfirði, og sjáum jafnframt uppbygginguna sem átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu með tilkomu álversins í Straumsvík. Að ætla sér að loka algjörlega á þetta eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gerir er nánast út í hött og gerir það að verkum að ekki er hægt að taka byggðastefnuumræðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs alvarlega ásamt þeim tillögum sem hafa verið lagðar fram um milljarð hér og milljarð þar.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Að mig minnir hafði sá sem slær í bjölluna fyrst talað um fjallagrös og hundasúrur sem stóriðjustefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.