Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:16:45 (5139)

2002-02-26 17:16:45# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa hv. þm. Kristjáni L. Möller að flytja hér ræðu í andsvari. Það er stundum gripið fram í fyrir mönnum út af því.

Ég vil árétta það enn og aftur að við höfum aðra stefnu í atvinnuuppbyggingarmálum. Og ef maður er á móti einhverjum tillögum sem aðrir koma með, hefur maður þá væntanlega ekki einhverjar aðrar tillögur fram að færa sem maður telur að séu betri og færir rök fyrir þeim? Ég veit að hv. þm. Kristján L. Möller getur ekki komið í ræðustól aftur. En ég vil segja þetta úr þessum ræðustóli núna: Gera menn sér ekki grein fyrir því t.d. hvernig staðan er í orkumálum á Íslandi? Landsvirkjun sem fyrirtæki verður skuldlaus á næstu 15 árum. Gera menn sér grein fyrir því hvaða tækifæri eru fólgin í því á breiðum grunni að vera með fyrirtæki sem verður skuldlaust á 15 árum? Hvaða afleiðingar hefur það fyrir atvinnustarfsemi sem er til staðar í landinu núna og atvinnustarfsemi sem menn áforma að setja upp í litlum mæli fyrst en síðan til að vaxa, ef við getum lækkað orkukostnaðinn um tugi prósenta á allra næstu árum? Það er svo sannarlega byggðastefna sem gagnast öllum á breiðum grunni. Ég nefndi hér dæmi úr mjöliðnaðinum. Halda menn að það hafi ekki gríðarleg áhrif ef þar er hægt að keyra niður orkuverð á allra næstu árum þar sem menn eru að kaupa orku í hinum dreifðu byggðum á Rarik-svæðinu fyrir 5 til 8 kr. kílóvattstundina? Menn skulu bara passa sig í svona málflutningi. Við höfum aðra sýn. Við höfum aðrar tillögur og við höfum ígrundaðar tillögur sem byggja ekki á uppbyggingu stóriðju af því tagi sem talað er um í þessum áformum.