Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:32:45 (5146)

2002-02-26 17:32:45# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og flestir hafa tekið eftir átta ég mig ekki á klukkuganginum hérna þannig að ég var nú ekki kominn að því að ræða þessa góðu þáltill. En ég get alveg upplýst hv. þm. um að ég hafði mjög mikla fyrirvara í þingflokki Sjálfstfl. við þessa þáltill., það er ekkert leyndarmál. Ég hef hins vegar stutt þessa ríkisstjórn af miklu afli og lagt mig allan fram, enda höfum við verið á gæfubraut í flestum tillfellum. Þó hef ég gagnrýnt hana mjög harkalega þegar ég hef talið að hún væri að gera rangt. Ég gagnrýndi mjög peningamálastefnuna í mörg ár og hélt hér margar ræður um það. Ég sé ástæðu til að fagna því nú að núna sé stóra byggðamálið þó komið í höfn, sem er fyrir rétta og frjálsa gengisskráningu, sem er þá grundvöllurinn undir öllu hinu sem við ætlum að byggja, því við munum aldrei efla þessa landsbyggð nema góð afkoma sé í rekstri atvinnufyrirtækjanna.