Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:33:57 (5147)

2002-02-26 17:33:57# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér telst til að þrír hv. þm. Sjálfstfl. hafi rætt þá tillögu sem fyrir liggur. Tveir þeirra hafa lýst því yfir að þeir styðji þetta mál ekki að óbreyttu. Ég spyr: Er það hlutfallið í þingflokki Sjálfstfl.? Er ekki þingmeirihluti að baki þessu stóra máli? Spyr sá sem ekki veit.

Í annan stað vildi ég vekja athygli hv. þm. á því --- hann er jafn hreinskiptinn og fyrr --- að hann segist hafa stutt þessa ríkisstjórn af heilum hug og geri það áfram, enda þótt hann sé á móti ríkisstjórninni í sjávarútvegsmálum, enda þótt hann sé á móti stefnu ríkisstjórnarinnar í peningamálum og efnahagsmálum, (EOK: Var.) enda þótt hann sé á móti stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Ég spyr: Hvar er hann samstiga ríkisstjórninni? Væri ekki rétt að hann færi að koma í (Gripið fram í.) rétt lið? Er ekki rétt að hann fari að átta sig á því hvar hinar réttu áherslur liggja? Veri hann velkominn í hið rétta lið.