Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:34:52 (5148)

2002-02-26 17:34:52# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú eru menn farnir að nota þessa eina mínútu til stórra spurninga. En ég skal svara mjög skýrt.

Þessi ríkisstjórn, svo og forverar hennar tveir, hafa verið að stíga mikil gæfuspor í efnahagslífi Íslendinga. Ég gagnrýndi hér í þrjú ár peningamálastefnu Seðlabankans, hvað hann væri að gera og gerði það af fullri einurð. Ég fagna því hins vegar í dag að fyrir ári var horfið frá þeirra vondu ráðum og nú fylgjum við réttri og heiðarlegri stefnu í efnahagsmálum. Ég þarf ekki að skipta um flokk til að gagnrýna það sem er gert rangt. Nei, ég þarf þess ekki. Við munum ræða hér innan tíðar sjávarútvegsmálin. Ég þarf heldur meira en þær 16 sekúndur sem eftir eru, þar mun koma fram hvað í stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar er gagnrýnisvert af minni hálfu og hvað sé rétt. Það er enginn vandi að fara yfir það. En ég er alveg viss um að þá færi ég nú úr öskunni í eldinn ef ég ætlaði að fara að fylgja einhverju af því sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram í sjávarútvegsmálum.