Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:43:21 (5155)

2002-02-26 17:43:21# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veiti andsvar öðru sinni hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.

Ég vil spyrja hann um atvinnuuppbyggingu úti á landi. Það hafa verið settar í það nokkur hundruð milljónir á ári í gegnum Byggðastofnun. Þá vil ég spyrja hv. þm. sem er lykilmaður í ríkisfjárlögum: Hvernig hefur staðið á því og hvernig hefur það getað gerst að ríkisfyrirtæki hafa óbeint í skjóli hæstv. ríkisstjórnar fjárfest í nýsköpun í atvinnulífinu á höfuðborgarsvæði svo hundruðum milljóna skiptir án þess að nokkur hafi talað um það? Má þar nefna t.d. eins og Póst og síma sem líklega er búinn að koma að stofnun 12--15 fyrirtækja? Atvinnuuppbyggingin með atbeina þess opinbera úti á landi, ef farið yrði yfir sviðið, er því smámál. Hvernig í ósköpunum stendur á því þegar menn hafa þessa heildarmynd og hafa ríkisstjórnina á bak við sig, að ekki er tekið heildstætt á þessum málum?