Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:02:44 (5159)

2002-02-26 18:02:44# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Byggðaáætlunin sem hér er lögð fram af hæstv. iðn.- og viðskrh. er eins og svo oft áður lögð fram í góðri meiningu. Menn vænta mikils af áætluninni og vilja að á áætlunartímanum verði unnið að öllu því sem þar er nefnt. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti að lagðar eru fram slíkar áætlanir. Misjafnlega hefur gengið að framfylgja þeim fram að þessu og ætla ég ekkert að spá neinu um þessa.

Ég hef lesið þessa þáltill. og samkvæmt henni er ekki tilgreint mikið af því sem fara á út í heldur meira um bollaleggingar sem ljóst er að erfitt getur verið að koma í framkvæmd. Ég velti því fyrir mér t.d., herra forseti, hvað þýðir, eins og stendur í þessari till. til þál.:

,,Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.``

Ég held að allir séu út af fyrir sig sammála þessu, þ.e. að skapa sem bestu og hagstæðustu búsetuskilyrðin. Samt sem áður veit ég að mismunur, t.d. á launum og kjörum, er hvergi meiri en einmitt úti á landi þar sem sjómennirnir eru langtekjuhæstu menn í öllum byggðum í kringum landið. Það var gerð könnun á því sem birt var fyrir nokkrum vikum. Þar kom fram að í öllum sjávarbyggðum er gríðarlegur munur á launum milli þeirra hæstu og þeirra lægstu.

Ég geri ekki ráð fyrir að sérstök stefnumörkun sé í gangi um að annaðhvort eigi að hafa alla þá sem hafa virkilega góðar tekjur á sama stað eða þá sem hafa virkilega litlar tekjur á sama stað. Það hlýtur að vera einhver mismunur á því hvernig tekjujurnar eru. Þær geta aldrei orðið jafnar. Ég veit að með þessu orðalagi er viðfangsefnið fært í þann búning sem allir geta kannski sætt sig við en ég sé ekki hvernig í dauðanum er hægt að koma þessu í framkvæmd.

Ég er líka efins um fleira sem fram kemur í þessari tillögu, m.a. því sem kemur hér fram í c-lið:

,,Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.``.

Samkvæmt greinargerðinni, sem segja má að sé hluti af tillögunni en ekki beinlínis hluti af dæminu þegar greitt er um það atkvæði, er einungis verið að tala um Akureyri. Það er ljóst að ekki er átt við svæði sem allir vita að hafa átt í miklum erfiðleikum, t.d. Vestfirðir, sem margoft hefur verið talað um. Ef við tölum aðeins um Suðurland og Suðausturland þá komum við að stöðum eins og Hornafirði. Við getum farið á Austfirðina alla, t.d. til Djúpavogs og séð stöðuna þar. Við getum farið um hluta af Vesturlandi, ef við kærum okkur um, og séð að allir þessir staðir eiga í vök að verjast ef við mælum vandamál þeirra í því að þar hafi fólki fækkað. Ég held að það hljóti að vera afskaplega erfið staða fyrir fólk sem býr í sveitarfélögum sem greinilega eiga ekki að vera inni í byggðaáætluninni, nema þá sem aukaverkefni, að horfa upp á að stjórnvöld ætli sér að pikka út þær byggðir sem eru langstærstar. Það er búið að ákveða hvaða byggðarlag kemur fyrst, þ.e. Akureyri. Það segir mér það að önnur byggðarlög næst í röðinni séu hugsanlega Ísafjörður, Sauðárkrókur og Egilsstaðir.

Önnur og enn þá minni byggðarlög eru greinilega mjög neðarlega á listanum. Ég velti því fyrir mér til hvers þetta er lagt fram með þessum hætti. Hvaða tilgangi þjónar í raun að gera svona upp á milli þeirra byggða sem við vitum að eru öll í nánast sömu stöðu? Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra frá hæstv. iðn.- og viðskrh. hvaða tilgangi þetta í raun þjónar.

Ég hef oft heyrt þær hugmyndir áður að nauðsynlegt væri að setja upp vaxtarsvæði. Ég heyrði þá hugmynd fyrir mörgum árum að rætt var um að á Vestfjörðum ætti að vera eitt vaxtarsvæði, á Norðurlandi annað og á Austfjörðum annað. Þessar hugmyndir hafa verið í gangi í áratugi. En það hefur aldrei þótt fýsilegt að setja þetta upp sem einhverja stefnu. Ég er hræddur um að þetta geti einfaldlega þýtt að fólkið á hinum svæðunum, sem eiga í rauninni að njóta þjónustunnar frá þessum stóru vaxtarsvæðum, fái ekkert. Ég óttast að þær byggðir gefist upp.

Eitt langar mig að nefna, herra forseti, sem mér finnst vanta og vona að iðnn. taki sérstaklega til skoðunar, þ.e. ýmislegt sem hefur verið gert á undanförnum árum í gegnum Byggðastofnun, aðgerðir í gegnum byggðaáætlun sem ég sakna úr þessari till. til þál. Þar er ég að tala um styrkingu eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni sem ég álít að hafi gert gríðarlegt gagn. Í þessi eignarhaldsfélög hefur verið sett fé sem heimamenn hafa að mestu stjórnað. Þeir hafa séð um umsóknir og úthlutanir og á móti fjármunum frá ríkinu hafa komið fjármunir frá sveitarfélögunum og öðrum aðilum. Þarna hafa þeir menn setið sem næstir eru verkefnunum og áttað sig best á hvað þurfti að gera. Ég sé ekki minnst á eignarhaldsfélögin í þessari tillögu. Ég sakna þess virkilega og tel að það sé nokkuð sem skoða þurfi betur.

Atvinnuþróunarfélögin eru heldur ekki nefnd sérstaklega. Þau hafa fengið styrki frá Byggðastofnun. Byggðastofnun hefur úthlutað til iðnfulltrúa, ferðamálafulltrúa og fleiri sem hefur styrkt mjög starf þeirra aðila um allt land. Ég held að það sé mikil afturför ef þessu verður öllu kastað fyrir róða.

Mér sýnist, herra forseti, að Byggðastofnun sem slík sé að liðast í sundur. Eftir að Byggðastofnun flutti norður á Sauðárkrók hafa að störf hennar meira og minna farið undir undir kvið. Því miður.