Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:11:19 (5160)

2002-02-26 18:11:19# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. var búinn að setja inn í þessa tillögu nöfn ákveðinna staða heyrðist mér, í c-lið tillögunnar. Hann var þegar farinn að gagnrýna að þeir staðir væru tilteknir sem eru þó ekki tilteknir. Ég á því í svolitlum vandræðum með að bregðast við því.

Í máli hv. þm. kom jafnframt fram að ekkert væri gert nema þá fyrir þessa staði sem hann taldi að væru tilteknir. Ég vil í því sambandi benda á að í fyrstu tillögunni til aðgerða var fjallað um nýsköpunarverkefni, nýsköpunarmiðstöð og fjármagn til nýsköpunar á landsbyggðinni.

Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Sérstök áhersla verði lögð á ný atvinnutækifæri í minni byggðarlögum þar sem atvinnulíf er einhæft.``

Og ég vil bara vekja athygli á þessu vegna þess að hv. þm. lét eins og það ætti ekkert að gera fyrir landsbyggðina almennt.

Málið er að af þessum 22 tillögum ná 20 til landsins alls, ein nær eingöngu til Akureyrarsvæðisins og ein bara til Egilsstaða og Ísafjarðar.