Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:21:01 (5168)

2002-02-26 18:21:01# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:21]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hér er afar sérkennileg staða uppi. Hæstv. iðnrh. verður að vísa í stjórnarsáttmálann þegar hún er að bera af sér orð hv. þm. Sjálfstfl., Kristjáns Pálssonar, sem er með í ríkisstjórn. Þetta er alveg furðulegt og afar sérstakt. Eigum við von á því, virðulegur forseti, að við fáum kannski að sjá hérna nokkrar byggðaáætlanir? Framsfl. komi með eina byggðaáætlun, kannski klofna? Sjálfstfl. komi með aðra byggðaáætlun, kannski klofna. (Gripið fram í: Og sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum.) Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum, Vestfirðingar sem telja sig vera algjörlega gleymda í byggðaáætlun hæstv. iðnrh. eru að vinna að sinni byggðaáætlun. Ég á von á því að Norðurland vestra og Snæfellsnes telji sig vera hlunnfarna í þessari byggðaáætlun. Hvað er eiginlega að gerast? Munum við fá sérstaka byggðaáætlun frá stjórnarandstöðunni í Sjálfstfl.?