Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:27:23 (5174)

2002-02-26 18:27:23# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:27]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er síðan annað atriði sem kemur fram í dagsljósið í þeirri umræðu sem hér er og það er náttúrlega hve margir þingmenn ríkisstjórnarinnar eru með fyrirvara á þessari áætlun og vilja jafnvel helst ekkert við hana kannast og telja hana frekar lélega.

Ef ég fer aðeins yfir þetta og rifja upp daginn, þá sýnist mér að fimm óbreyttir þingmenn, ef svo má að orði komast, hv. þm. stjórnarinnar hafi komið í ræðustól: Varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna, Einar K. Guðfinnsson, hafði fyrirvara og eftir voru fimm. Síðan höfum við heyrt af fyrirvara formanns þingflokks framsóknarmanna. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér og talar um að lítið kjöt sé á beininu, var óánægður og er með fyrirvara. Þá sýnist mér vera eftir fjórir. Síðan kemur hv. þm. Kristján Pálsson núna og er með ákveðna fyrirvara og þá sýnist mér vera eftir tveir eða þrír. Ég verð að játa það að ég var í kaffi þegar hv. þm. Hjálmar Árnason talaði, sá fulltrúi Framsfl. sem hér hefur talað.

Mér finnst stutt og laggott, herra forseti, að flestallir stjórnarþingmenn sem hér hafa talað séu með fyrirvara á þessu máli.