Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:55:18 (5179)

2002-02-26 18:55:18# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Við ræðum hér þáltill. um stefnu í byggðamálum. Hún er í fimm liðum, a, b, c, d og e. Í þessum liðum öllum kemur fram nokkurs konar ástandslýsing á landsbyggðinni. Af þessum liðum má lesa ákveðið ástand. Í fyrsta liðnum er talað um að draga úr mismun. Í öðrum lið er talað um að aðstoða byggðarlög. Í þriðja lið er talað um að auðvelda ræktun menningar. Í fjórða lið er fjallað um að treysta búsetuskilyrði og stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi. Hér er kjarni málsins kominn. Þessi þáltill. setur fram staðhæfingar og fullyrðingar um að ástand landsbyggðarinnar sé hörmulega lélegt. Óhætt er að taka undir það. Það er ekki nema von að hv. þm. Sjálfstfl. komi hér í röðum og kveinki sér þegar við lesum þessa þáltill. Hún er í raun mikill áfellisdómur yfir byggðastefnu liðinna ára.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar hafa á annan tug þúsunda flust af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Það er kannski tímanna tákn, herra forseti, að einmitt þegar við erum að ræða um byggðastefnu heyrum við í fréttum að verið er að leggja niður mjólkurstöðina á Hvammstanga. Þar vinna sjö manns, væntanlega í fullri vinnu, að framleiðslu á mjög góðum ostum. Þeir verða þá væntanlega, en vonandi ekki --- ég endurtek vonandi ekki --- atvinnulausir þann 1. september nk.

Ég er sannfærður, herra forseti, um að þeir sem þarna vinna, svo ég taki dæmi, og hinir tveir sem eru heima hjá sér af því að þeir unnu í póstinum þar, munu líta í þessa till. til þál. um stefnu í byggðamálum án þess að finna nokkuð sem gefur þeim beinar vonir. Orðalag þessarar þáltill. er mjög almennt. Það er líka mjög gott og jákvætt viðhorf sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra gagnvart landsbyggðinni, þess ber að geta. Samt finnst mér að það vanti beinar aðgerðir.

Talað hefur verið um það hér, og kemur frá Ísafirði, vestan af fjörðum eins og margt ágætt, að nær hefði verið að gera svæðistengdar byggðaáætlanir. Ég held að það sé rétt að fara að einhenda okkur í að vinna þannig. Fyrst að Vestfirðir hafa oft verið nefndir hér getum við t.d. ímyndað okkur að þar séu þrjú svæði sem vinna mundu hvert sína byggðaáætlun. Er óeðlilegt að Vesturbyggð og Tálknafjörður vinni saman byggðaáætlun fyrir sitt svæði? Hverjir þekkja möguleika byggðanna ef ekki fólkið sem býr þar? Hverjir þekkja tækifærin, er það ekki fólkið sem býr þar?

[19:00]

Hvar eru möguleikar okkar? spyrja margir. Þeir felast t.d. í fiskeldi, segja margir. Og hvað getum við gert til að hrinda því af stað? Það er nefnt í þessari till. til þál., þar er talað svona almennt um það. En það þarf að fara með beinni hætti í þetta, tel ég, herra forseti.

Þegar landsbyggðarfólk kemur saman og veltir fyrir sér þeim möguleikum sem byggðir þess að búa yfir, festir þá niður og kemur með tillögur þá eru komnar raunhæfar, áþreifanlegar tillögur sem ættu að vera vænlegar til árangurs. Byggðarlögin eiga síðan að leggja þessar tillögur fyrir ríkisvaldið og segja: Þetta viljum við gera. Hér eru tækifærin.

Nefnum aftur Vestfirði. Hver eru tækifærin þar? Á morgun er gert ráð fyrir því, herra forseti, að þar verði ráðstefna um þorskeldi. Vestfirðingar hafa verið manna duglegastir í því að rækta þorsk og hafa framleitt langmest af þorski. Er ekki eðlilegt að miðstöð um rannsóknir á þorskeldi verði á Vestfjörðum þar sem góður árangur hefur verið sýndur? Við getum talað um kræklingaeldi sem er að hefjast í Arnarfirðinum. Það hefur reyndar staðið í á annað eða þriðja ár. Þar liggja miklir mögleikar. Ég tala nú ekki ferðaþjónustuna og möguleika þar eins og t.d. í Tálknafirði þar sem er orðin mjög mikil og góð hefð fyrir góðri ferðaþjónustu.

Við höfum mikla möguleika og tækifæri og fólkið sem býr í byggðunum þekkir þessi tækifæri. Ég tel, herra forseti, að betri tengingu þurfi þarna á milli.

Líka hefði verið áhugavert ef okkar ágæta höfuðborg hefði komið að þessari byggðaáætlun, þ.e. fulltrúar höfuðborgarinnar, borgar sem er mjög vel stjórnað og hefur prýðisborgarstjóra. Það hefði verið upplagt ef Reykjavíkurborg, höfuðborg landsins, hefði lagt þarna lóð á vogarskálarnar til að sýna vilja sinn í verki til að efla byggð úti á landi og styrkja hana því að það er ekki hagur höfuðborgarinnar að allir landsmenn flytji suður í þeim mæli sem rætt hefur verið um hér.