Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:20:33 (5182)

2002-02-26 19:20:33# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:20]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Aldrei önnur grunnforsenda undir byggðarlögunum í kringum landið, sagði hv. þm. Og síðan talaði hann um það að hann væri á móti frv. ríkisstjórnarinnar um veiðigjald, sem var verið að dreifa hér, ekki var hægt að misskilja það. (EOK: Nei.)

En er hv. þm. þá ekki á móti hinu raunverulega auðlindagjaldi sem nú er greitt í milljarðavís af þeim sem þurfa að sækja sjó, af þeim sem þurfa á veiðiheimildunum að halda? Er hv. þm. tilbúinn að skrifa upp á þá stefnu sem kostar það að ekki er hægt að hefja neinn atvinnurekstur í þessum byggðarlögum sem hann var að tala um að þyrftu að hafa aðgang að auðlindinni? Hvernig ætlar hv. þm. að styðja slíka stefnu þegar hann segir síðan í hinu orðinu að líf byggðalaganna liggi við? Það hefur hann gert fram að þessu.

Hann lýsir því að vísu yfir að hann vilji ekki það frv. sem nú er búið að dreifa en ég veit ekki betur en að hann styðji þá stefnu sem er uppi.