Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:21:43 (5183)

2002-02-26 19:21:43# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:21]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem skiptir okkur máli við stjórn fiskveiða er aðeins eitt, það er að ná árangri. Við höfum náð ýmsum árangri við veiðar uppsjávarfiskanna, það hefur gengið alveg þokkalega og vel. Það hefur fært þjóðinni heilmikla gæfu, heilmikla peninga, heilmikinn arð sem hefur hríslast um samfélagið.

Við höfum ekki náð neinum árangri við stjórn bolfiskveiðanna og það er það sem skiptir máli og menn verða að horfast í augu við. Við erum að veiða helminginn af því sem við veiddum áður, það er málið sem við verðum að horfa á. Við verðum að ná tökum á því hvernig við getum umgengist fiskstofnana þannig að þeir fari ekki alltaf niður á við, eins og er að gerast bæði hér og alls staðar annars staðar í Norður-Atlantshafinu, hvort sem menn eru að nota einstaklingskvóta eða almenna kvóta, það er alveg sama. Sóunin með því að nota aflakvótana gengur ekki. Það liggja þúsundir sannana fyrir því.

Þess vegna er það hörmulegt þegar menn eru að drepa umræðunni á dreif og spyrja eftir einhverju auðlindagjaldi eins og stjórnarandstaðan virðist einbeita sér að að öllu leyti.