Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:23:52 (5185)

2002-02-26 19:23:52# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var að tala um það sem skiptir máli. Ég var að tala um að við yrðum að ná árangri við stjórn fiskveiða. Það skiptir okkur öllu máli hvort við erum að veiða 500 þús. tonn af þorski, 200 þús. tonn eða kannski engan. Hverju ætlum við þá að skipta ef við veiðum engan? Það er sú ógn sem er yfir okkur. Það er aðalatriðið.

Hvort einhver útgerðarmaður, einhver X eða Z stendur betur eða verr skiptir ekki meginmáli. Fyrir þjóðina skiptir það öllu máli að við varðveitum fiskstofnana þannig að það sé sú auðlind sem við getum byggt á til framtíðar eins og við höfum gert. Rifrildi um það hvar arðurinn lendir er algjört aukaatriði. Arður sem verður til í atvinnurekstri hríslast um allt samfélagið. Arðurinn af loðnuveiðunum hríslast um samfélagið. Það gera sér allir grein fyrir því nema kannski gamlir sósíalistar sem trúa því ekki. En þetta er nú staðreynd samt.