Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:28:33 (5189)

2002-02-26 19:28:33# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:28]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur nú verið ýmislegt ef til á að taka. Ég sé á þessari þáltill. frá ríkisstjórninni að þar er gert ráð fyrir nýjum sjóði til þess að efla nýjan iðnað á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að láta þennan sjóð inn í Byggðasjóð, eins og væri náttúrlega eðlilegast af öllu að setja hann þar sem hann er á Sauðárkróki. Ég hef það til marks. Ríkisstjórnin sjálf virðist ekki treysta Byggðastofnun.

Það þarf því ekki langt að leita fanganna til að benda á að það eru ýmsir fleiri en ég sem efast um framkvæmd mála þar. Við höfum alveg orðið vör við það hvernig stjórnsýslan hefur gengið þar. Haldinn var fundur í stjórn Byggðasjóðs held ég á fimmtudag eða föstudag, þá hafði ekki verið haldinn fundur síðan á jólaföstu. Þetta tel ég ákaflega óeðlilegt og þegar ég spyr hvað sé að þarna þá fæ ég mjög lítil svör.

En ég hef orð á þessu vegna þess að mér svíður undan því. Hér er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða í byggð á Íslandi öllu sem stendur höllum fæti.