Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:53:53 (5199)

2002-02-26 19:53:53# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni sem ástæða væri til að ræða nánar um. Ég hyggst hins vegar bæta pínulítið við það sem ég var að tala um í fyrri ræðu minni vegna þess að ég varaði mig ekki á því hvað ég hafði stuttan tíma. Ég var að ræða um að í þessari tillögu er á tveimur stöðum talað um byggðarlögin í tengslum við veiðiheimildir. Og það stendur skýrum stöfum að stefna stjórnvalda megi ekki draga úr möguleikum til nýliðunar í sjávarútvegi. Það er að vísu ekki sagt sjávarútvegi heldur í atvinnuvegunum, en sjávarútvegur hlýtur að vera þar undir, því að hann er auðvitað aðalatvinnuvegur þeirra byggðarlaga sem við erum að tala um í þessari umræðu.

Ég er út af fyrir sig afar sáttur við það að þetta orðalag skuli vera í tillöguni, einfaldlega vegna þess að í því er fólgin yfirlýsing um að núgildandi stefna sé óheppileg, stórhættuleg og henni eigi að breyta, a.m.k. ef maður les það sem þarna stendur eins og venjulega íslensku. En maður fær svolitla bakþanka þegar maður er kominn yfir á bls. 8 af bls. 3, því að þar er talað um að huga þurfi að stöðu nokkurra fámennra byggðarlaga sem eru háð útgerð smábáta og viðkvæm eru fyrir áhrifum af flutningi aflamarks milli byggðarlaga. Og við endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða er mikilvægast að tryggja þessum byggðarlögum áframhaldandi aðgang að aflamarki. Þarna er verið að tala um að koma einhverjum veiðiheimildum, byggðakvóta eða einhverju slíku, (Gripið fram í.) 1.500 tonnum, sennilega úr frv. sem verið var að deila út hér í dag, í hendurnar á einhverjum sem eiga í erfiðleikum á þessum stöðum.

Mér finnst hart að þurfa að standa í þessum sporum til að benda á að í þessu máli, þessari till. til þál., er í raun og veru á öðrum staðnum verið að benda á að stjórnvöld eigi að breyta stefnu sinni til að gera þeim atvinnuvegi kleift að lifa og til að nýliðun geti orðið í atvinnuveginum. Síðan er annars staðar í þáltill. talað um eitthvert lítilræði til þess að bjarga málum þar sem allt er komið í öngþveiti og vandræði. Það er ekki hægt að bjóða upp á svona plagg.

Ég ætla að nefna annað dæmi úr þessu plaggi. Það er landbúnaðarkaflinn og ég ætla ekki að eyða mínum stutta tíma í að lesa hann upp en í honum stendur nákvæmlega ekki neitt. Það er einungis lýsing á ástandi sem nú er í landbúnaði. Það er í sjálfu sér umhugsunarefni að í byggðaáætlun, till. til þál. um byggðaáætlun á Íslandi, sé ekkert um hvað eigi að gera í landbúnaði. Það er umhugsunarefni. En úr því að menn ætluðu ekki að leggja til að gera nokkurn skapaðan hlut í landbúnaðarmálunum í tengslum við byggðaáætlun, hvers vegna í ósköpunum voru menn þá með þessar klásúlur þarna inni til að lýsa ástandinu?

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég les það út úr því að um þetta mál hafi verið fjallað en ekki hafi náðst neitt samkomulag um hvað ætti að gera og þess vegna standi þessi orð þarna inni sem vitnisburður um það að stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um eitt eða neitt.

Síðan finnst mér ástæða til að nefna það hér, vegna þess að lítið tóm gafst til andsvara við hv. 5. þm. Vestf. þar sem hann fór hér mikinn og talaði um sjávarútvegsmálin og þar sem hann leyfði sér að gera lítið úr því sem er mesti vandi byggðarlaganna á Vestfjörðum sem er það gífurlega háa gjald sem menn þurfa að borga ef þeir ætla að fara í útgerð. Hann leyfði sér að gera lítið úr því eins og það skipti engu máli. Hv. þm. talaði þannig að það skipti bara engu máli hvert þessir peningar færu og hvernig þeir rynnu því að þeir skiluðu sér inn í þjóðfélagið.

Skyldu ekki ýmsum af sveitungum hans á Vestfjörðum og kjósendum hans jafnvel og öðru fólki í byggðarlögum á Vestfjörðum finnast það undarlegt þegar hv. þm. talar á þennan hátt, eins og það skipti bara engu máli að það kosti svo mikla peninga að hefja útgerð frá þessum byggðarlögum að það sé engin glóra í því. Hvers lags málflutningur er þetta eiginlega?

Ég hefði viljað hlusta á hv. þm. útskýra afstöðu sína til þessara mála með einhverjum öðrum hætti. En hann kýs að flýja í það að breyta þurfi sjálfu þorskveiðikerfinu, þ.e. stjórn fiskveiðanna sjálfra, sem er út af fyrir sig allt annað mál og ég get alveg fallist á rök hans í því að menn geti haft þá skoðun að hætta eigi við þetta kerfi sem fiskveiðistjórnarkerfi. En að flýja í að tala um annað, þegar verið er að tala um að eignarhaldið á réttinum til þess að stunda sjó er selt á þvílíku verði að ekki er hægt að hefja rekstur á þeim stöðum, það finnst mér ekki merkilegur málflutningur. Og þar er hv. þm. illa fjarri að geta ekki hlustað á orð mín en ég hafði ekki tækifæri til þess að tala við hann um þetta mál í stuttum andsvörum og ég get ekki látið ómótmælt þvílíkri dellu sem það er að ætla að líta fram hjá því sem stendur þeim byggðarlögum fullkomlega fyrir þrifum til að þau geti dafnað.