Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:41:27 (5215)

2002-02-26 20:41:27# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður æ fróðlegra að fylgjast með þessari umræðu. Hér hefur hv. formaður þingflokks Framsfl. og formaður Byggðastofnunar um leið lýst því yfir að hann sé algerlega andvígur því hvernig þetta plagg er sett upp. Þetta plagg hefði að hans mati átt að vera um landið allt og aðalgrunnurinn undir plagginu er þess vegna vitlaus. Bullandi ágreiningur kemur fram milli hv. þm. og hæstvirts ráðherra og ríkisstjórnarinnar vegna framkominna tillagna um að taka verkefni frá Byggðastofnun og flytja þau til Akureyrar. Það er greinilegt að hann tekur undir gagnrýni stjórnarþingmanna á þessi mál frá því í dag. Ég spyr hv. þm. bara: Sér hann fyrir sér að þetta plagg taki slíkum breytingum að hann geti stutt það? Mönnum þættu aldeilis fréttir ef formaður þingflokks Framsfl. gæti ekki stutt ráðherra sinn í þessu máli þegar þar að kemur.