Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:42:39 (5216)

2002-02-26 20:42:39# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel alveg víst að hv. iðnn. sem ég vænti að fái þetta skjal til meðferðar muni fara vandlega yfir það og þau sjónarmið sem fram hafa komið í umræðunni og munu koma fram í umsögn um málið.

Eins og ég gat um í upphafi míns máls held ég að enginn vafi leiki á því að það eru býsna ólík sjónarmið í málinu. Það verður auðvitað list þeirra sem fá málið til meðhöndlunar á vegum þingsins að leiða fram þau sjónarmið og leita að niðurstöðum sem flestir geti sætt sig við. Ég ber því fullt traust til þeirra sem fara með þetta starf í þingnefnd.

En ég leyni því ekki og hef ekki gert, hvorki í þessari umræðu né áður, að ég tel að að sumu leyti megi áherslurnar vera öðruvísi og mér finnst ekkert að því þó að þingmenn úr sama flokki hafi ekki að öllu leyti sömu sjónarmið. Ég tel þvert á móti eðlilegt að ef menn hafa ekki sömu sjónarmið setji þeir þau fram og leiti síðan leiða til að ná niðurstöðu.