Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:19:44 (5229)

2002-02-26 21:19:44# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:19]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að fram hefur komið að hv. þm., formaður þingflokks Framsfl., hefur komið að því að undirbúa þetta plagg þá langar mig til að spyrja um það sem stendur á bls. 3 undir fyrirsögninni Traust og fjölbreytt atvinnulíf, en þar stendur í seinni hluta þeirrar klásúlu:

,,Þá er nauðsynlegt að stefna stjórnvalda í atvinnugreinum sem eru þýðingarmiklar á landsbyggðinni, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi, dragi ekki úr nýliðun, frumkvæði og fjárfestingum í fámennum byggðarlögum þar sem fárra annarra atvinnukosta er völ.``

Ég sé hvergi í aðgerðaáætluninni hvernig á að fylgja þessu fram. En þetta virðist eiga beint við t.d. sjávarútveginn, þetta vísar á stefnubreytingu, ef ég kann að lesa íslenskt mál. Ég óska eftir því að hv. þm. upplýsi með hvaða hætti menn hugsa sér að standa að þessari stefnubreytingu.