Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:22:02 (5231)

2002-02-26 21:22:02# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:22]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hv. þm. sagði um þetta. Mér finnst þetta skipta afar miklu máli og ég ætla bara að vona að hæstv. ráðherra hafi hlýtt á það sem hv. þm. var að segja um þetta og komi hér í sinni ræðu á eftir og taki undir og útskýri nánar hvernig eigi að standa að þessu. Því að það sem ég sagði hér áðan líka var það að þess er hvergi getið í aðgerðaáætluninni hvernig eigi að framfylgja þessu.

En það er náttúrlega auðséð að eigi menn að koma á því ástandi að nýliðun geti orðið í útgerð á Íslandi þýðir það að gjörbreyta þarf fiskveiðistefnunni og losa sjávarútveginn undan því ástandi sem er, þar sem menn þurfa að kaupa veiðiheimildir á himinháu verði, sem þýðir að það er ekki nokkur vegur að nýliðun geti orðið í sjávarútvegi í þeim byggðarlögum sem þarna er verið að lýsa.