Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:40:57 (5235)

2002-02-26 21:40:57# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um jákvæð viðbrögð hér í þinginu, það hafi að vísu ekki verið algjör samstaða. Ég heyrði ekki betur, herra forseti, en að hér hefði verið bullandi ágreiningur og að fram kæmi mikil og hörð gagnrýni ekki síst af hálfu stjórnarliða á þessa þáltill. og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Það sem var gagnrýnt einna mest var að ekkert er naglfast. En í huga ráðherrans er eitt greinilega alveg naglfast og það er kjördæmapotið sem hún sakaði þingmenn Vestfirðinga um að hafa haft í frammi hér við þessa umræðu og beindi þar greinilega orðum sínum til formanns þingflokks Framsfl. og formanns stjórnar Byggðastofnunar sem gekk úr salnum undir ræðu hæstv. ráðherra.

Varðandi stefnumótunina er það staðreynd að undirstöður fjölbreytni í atvinnulífi, sem ríkisstjórnin gumar af að vera að styrkja, er traust velferðar- og stoðþjónusta. Hún hefur verið veikt á undanförnum árum. Og þetta undarlega tal hæstv. ráðherra um póst- og símaþjónustuna er aldeilis alveg furðulegt. Staðreyndin er sú að póstþjónustan (Forseti hringir.) hefur veikst stórlega fjárhagslega. Hún var í góðu sambýli við símafyrirtækin í landinu. Ég mun koma nánar að því í seinna andsvari mínu.