Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:48:59 (5242)

2002-02-26 21:48:59# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:48]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra byggðamála átti við þegar hún viðhafði þau orð að þingmenn Vestfjarða væru hér í einhverri samkeppni um að setja fram athugasemdir eða aðrar skoðanir en birtast í plagginu um stefnu í byggðamálum.

Ég ætla a.m.k. að lýsa því yfir fyrir mína parta að ég hef svipaðar skoðanir á þessum byggðamálum og ég hef haft í nokkur ár, að byggðastefnan væri ágætisyfirlýsing en það vantaði alltaf í hana eftirfylgnina og væri búið að vanta lengi. Ég hef gert grein fyrir því í ræðum mínum í dag að megnið af því sem stendur í þessu plaggi stóð líka í plaggi sem fæddist 1991 og í mörgum plöggum sem hafa síðar komið varðandi stefnu í byggðamálum. En iðulega hefur eftirfylgnina vantað og síðan er það auðvitað það að stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum hefur grafið undan byggðunum.