Málefni Landssímans

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:35:29 (5251)

2002-02-27 13:35:29# 127. lþ. 83.91 fundur 364#B málefni Landssímans# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur með skýrlega lýst trausti á samgrh. og þar með á störfum hans og verkum sem tengjast Símanum. Það er merkileg yfirlýsing, ekki síst í ljósi viðtalsins við hæstv. forsrh. í Kastljósi í gær. Af því gátu sjónvarpsáhorfendur ekki skilið annað en að mörg þau atriði sem misfarist hefðu við stjórn Símans mætti rekja til sjálfs samgrh. Þessu munum við halda til haga.

Ég vil hins vegar árétta þá spurningu sem hv. 6. þm. Suðurl. lagði einnig fyrir hæstv. ráðherra og varðar stöðu stjórnarformanns Símans og stjórnenda hans. Þau mál eru á borðum hæstv. forsrh. um þessar mundir. Hann er sitjandi samgrh. og mitt mat er að ekki megi langur tími líða þangað til hreinsað verður út í Símanum og gert hreint fyrir dyrum á þeim vettvangi.

Hæstv. forsrh. lét þess getið í nefndu Kastljóssviðtali að hann væri maður sem tæki á hlutunum og hreinsaði til. Hann kvartaði raunar yfir slettuganginum og hneykslismálunum hjá Símanum og að af hálfu stjórnarandstöðunnar hefði verið gerð sérstök tilraun til þess að klína einhverju á hann. Herra forseti. Stjórnarandstaðan þarf ekkert að koma þar að málum. Veruleikinn er þessi: Sérstakir trúnaðarmenn Sjálfstfl. og forustu hans, hvort heldur þar er um að ræða fyrrv. formann einkavæðingarnefndar, núv. stjórnarformann Símans, fyrrv. framkvæmdarstjóra og forstjóra Símans ellegar samgrh., hafa algerlega séð um sléttuganginn einir og óstuddir. Hafi slest á einhvern í þessari orrahríð allri verður hæstv. forsrh. að líta sér nær.

En eftir stendur spurningin: Hvað hyggst forsrh. gera í þessum málum? Hvar ætlar hann að láta til sín taka næst?