Málefni Landssímans

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:40:16 (5254)

2002-02-27 13:40:16# 127. lþ. 83.91 fundur 364#B málefni Landssímans# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. forsrh. áðan, um að hann væri þeirrar gerðar að hann styddi sína ráðherra þegar hann bæri til þeirra traust, þá skal ég skrifa undir það. Ég tel að hæstv. forsrh. sé maður að meiri í þeim efnum. Ég vakti hins vegar athygli á því hér að þetta mál er allt þannig vaxið að það er ekki eingöngu samgrh. heldur einnig hæstv. forsrh. sjálfur og Sjálfstfl. sem bera ábyrgð á þeim axarsköftum sem gerð hafa verið. Það er engin tilviljun og enginn tilbúningur af hálfu stjórnarandstöðunnar að lykilmenn í öllum þessum farsa eru einstaklingar, sem hafa verið handvaldir úr innstu klíku Sjálfstfl. og hafa gengið þannig um dyr og ganga sem alþjóð er kunnugt um. Það er veruleikinn sem við blasir.

Á hinn bóginn var það merkileg yfirlýsing og út af fyrir sig, ákvörðun sitjandi samgrh. sem ég fagna í sjálfu sér, að hann skuli hafa beitt er fyrir því að ekki líði á löngu þar til gerðar verða upp sakir í Landssímanum á aðalfundi sem þar verður haldinn. Ég vænti þess að þá gangi eftir það sem gefið hefur verið til kynna, að þá renni upp hinn stóri D-dagur og þá verði nauðsynleg hreinsun gerð til að þetta stóra og mikilvæga þjónustufyrirtæki verði starfhæft á nýjan leik. Þar má engan tíma missa.