Kærur vegna læknamistaka

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:46:05 (5256)

2002-02-27 13:46:05# 127. lþ. 84.1 fundur 368. mál: #A kærur vegna læknamistaka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um kærur vegna læknamistaka sem komið hafa til kasta landlæknisembættisins, fjölda þeirra og hugsanlegan kostnað.

Í samantekt landlæknisembættisins eru taldar saman kvartanir og kærur og verða því formlegar kærur ekki greindar sérstaklega frá. Samanlagður fjöldi kvartana og kæra var sem hér segir:

Árið 1990: 188, árið 1995: 261, árið 2000: 373, árið 2001: 356.

Í samantekt embættisins eru kvartanir og kærur á þessum árum ekki flokkaðar eftir starfsheitum eða heilbrigðisstéttum en slík flokkun er fyrirhuguð hjá embættinu. Athugun embættisins hefur sýnt að í um þriðjungi tilfella teljast kvartanir og kærur eiga við rök að styðjast og er um helmingur þeirra tilvika vegna meintra mistaka. Um tíundi hluti tilfellanna er vegna meintra samskiptaörðugleika.

Hv. þm. spyr um ástæður fjölgunar tilvikanna. Tel ég vera margar skýringar á því. Í fyrsta lagi hefur orðið grundvallarbreyting á réttarstöðu sjúklinga með lögum um réttindi sjúklinga frá 1997.

Í öðru lagi hefur heilbr.- og trmrn. lagt sig fram um að upplýsa um réttindin með dreifingu bæklings á hvert heimili í landinu.

Í þriðja lagi hefur verið brýnt fyrir heilbrigðisstarfsmönnum að upplýsa sjúklinga um rétt sinn og var gefinn út bæklingur um þann þátt.

Í fjórða lagi er fólk orðið meðvitaðra um rétt sinn en áður, m.a. vegna aukinnar fræðslu og umræðu í þjóðfélaginu um réttindi sjúklinga.

Viðhorf til mistaka í heilbrigðisþjónustu hafa breyst, bæði hérlendis og erlendis. Meiri kröfur eru gerðar til þess að heilbrigðisstarfsmenn standi skil á gjörðum sínum, kröfur um upplýsingar og fræðslu um aðgerðir og hugsanlegar afleiðingar eru meiri en áður. Væntingar um gott gengi fyrir allar aðgerðir heilbrigðisþjónustunnar hafa vaxið og eiga brostnar væntingar stóran þátt í auknum kærufjölda að mínu mati.

Hv. þm. spyr einnig hver heildarkostnaður landlæknisembættisins sé vegna meðferðar þeirra kvartana og kærumála sem embættinu hafa borist undanfarin ár. Árið 2001 taldist kostnaður embættisins vegna þessa vera tæpar 13 millj. kr. Kostnaður fyrri ára vegna kvartana og kæra er hins vegar ekki greinanlegur í kostnaðarbókhaldi embættisins vegna annarrar bókhaldsaðferðar. Að mati landlæknisembættisins hefur hann verið hlutfallslega svipaður og árið 2001. Breyttar bókhaldsreglur munu hins vegar gera þennan kostnað auðsjáanlegan í framtíðinni.

Í þessu sambandi vil ég einnig nefna nýleg lög nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, en búast má við að hluti þessara mála fari beint til afgreiðslu samkvæmt þeim lögum. Á árinu 2001, sem var fyrsta ár sjúklingatryggingarinnar, var 31 tilvik tilkynnt samkvæmt þeim lögum.

Herra forseti. Ég vona og vænti þess að ofangreindar upplýsingar hafi svarað fyrirspurn hv. þm.