Kærur vegna læknamistaka

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:49:25 (5257)

2002-02-27 13:49:25# 127. lþ. 84.1 fundur 368. mál: #A kærur vegna læknamistaka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur borið fram ágæta fyrirspurn um læknamistök. Ég tek undir með ráðherra að á síðustu árum hefur réttarstaða sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins verið verulega bætt, bæði með lögum um réttindi sjúklinga og ekki síður með lögum um sjúklingatryggingu. Með þeim lögum var horft til réttar einstaklinga burt séð frá því hvort einhver sérstakur aðili innan heilbrigðiskerfisins ætti þar sök. Í stað þess að finna blóraböggul er reynt að leiðrétta mistök og koma í veg fyrir þau eftirleiðis. Fjölgun kæra sem kom fram í svari hæstv. ráðherra þarf ekki endilega að þýða að mistökin séu fleiri þótt það sé náttúrlega ekki útilokað heldur miklu fremur að fólk er meðvitaðra um rétt sinn og hvernig það getur leitað hans ef mistök hafa orðið. Það er vel.