Kærur vegna læknamistaka

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:50:40 (5258)

2002-02-27 13:50:40# 127. lþ. 84.1 fundur 368. mál: #A kærur vegna læknamistaka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör við þeim spurningum sem hér voru bornar fram. Eins og ég sagði áðan kom þetta fram á fundi í heilbr.- og trn. í aðdraganda þess að fjárlög voru afgreidd. Mig undraði hins vegar að landlæknisembættið kom ekki á fund fjárln., m.a. vegna þess að landlækni var beint með erindi sín til heilbr.- og trn. Stofnanir virðast halda að fagnefndirnar hafi töluvert um það að segja hvernig fjárlögin eru afgreidd.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða vel starfsaðstæður embættisins til að taka á þessum kærum. Eins og hér kom fram eru kærurnar á síðasta ári töluvert á fjórða hundrað. Þær eru 110 fleiri en þær sem berast til umboðsmanns Alþingis. Þessi mál geta verið mjög flókin, líka stjórnsýslulega, og mikil nauðsyn er á því að ráðið verði í stöðu læknis og jafnvel lögfræðings við embættið til að vinna að úrlausnum þessara mála þó að þau séu ekki alveg sambærileg við það sem gerist hjá umboðsmanni Alþingis. Því er ekki heldur hægt að líkja saman enda eru þar fleiri aðilar til að fjalla um og leysa þau mál sem koma upp. Grundvallarbreytingin er kannski fyrst og fremst sú að sjúklingar eru upplýstari, eins og hér hefur komið fram, um réttindi sín og fara þess vegna af stað með kvartanir eða kærur til landlæknisembættisins en það máttum við vita við afgreiðslu þeirra laga. Það er þá eðlilegt að Alþingi bregðist við og komi inn strax á þessu ári með 6--7 millj. kr. til landlæknisembættisins og síðan verði tekið á þessu heildstætt við afgreiðslu fjárlaga fyrir 2003 og þá með tilliti til þess að e.t.v. þarf fleiri starfskrafta en læknismenntaða til landlæknisembættisins þannig að hægt sé að sinna þessu svo að vel fari.