Ákvæði laga um skottulækningar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:55:08 (5260)

2002-02-27 13:55:08# 127. lþ. 84.2 fundur 397. mál: #A ákvæði laga um skottulækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrst fagna ég því að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé nú tilbúinn að svara þessari fyrirspurn. Hún var lögð fram 23. janúar og var ég orðin nokkuð langeygð eftir því að fá þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er um skottulækningar og hljóðar svo:

1. Hefur ráðherra einhverjar áætlanir um endurskoðun á ákvæðum læknalaga er fjalla um skottulækningar?

2. Telur ráðherra koma til greina að endurskoða umrædd lagaákvæði með það að markmiði að opna fyrir að óhefðbundnar lækningaaðferðir geti hlotið viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum? Og þær lækningaaðferðir eru skilgreindar í fyrirspurninni.

Herra forseti. Þegar ég kynnti þessa fyrirspurn í þingflokknum mínum var mér vinsamlega bent á að nota annað orð en skottulækningar, það væri svo óviðfelldið. Það vakti því undrun og athygli þegar ég upplýsti að orðið skottulækningar væri að finna á allnokkrum stöðum í læknalögum en auk þess í lögum um iðjuþjálfun og lögum um sjúkraþjálfun.

Það sem ræður fyrirspurn minni er sú staðreynd að þegar fólk hefur komið heim til Íslands eftir nám, oft margra ára nám og viðurkennt af Lánasjóði íslenskra námsmanna, í svokölluðum óhefðbundnum lækningum rekst það á vegg. Veggurinn sá er heimildarleysi til að nýta nám sitt og veggurinn ber nafnið skottulækningar.

Ég er ekki að mæla fyrir opnum heimildum til að iðka það sem í flestra huga eru raunverulegar skottulækningar en hér þarf sannarlega að taka til hendinni. Ég er meðflm. að þáltill. Láru Margrétar Ragnarsdóttur, um stöðu óhefðbundinna lækninga, að nefnd beri saman stöðu þeirra lækninga hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum og tek fram að hún var mjög meðmælt þessari fyrirspurn en báðar höfum við verið vondaufar um framgang tillögunnar sem hún er 1. flm. að. Í þeirri tillögu er vísað í nálarstungumeðferð, smáskammtalækningar, lið- og beinskekkjulækningar, hnykklækningar og nudd svo dæmi séu tekin. Þessar stéttir hafa líklega allar rekið sig á skottulækningavegginn en víst er að hvorki nám né störf á þessu sviði eru viðurkennd. Þess vegna getur hver sem er sagst vera hvað sem er.

Mikil þróun hefur átt sér stað í þessum fræðum, bæði á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum, og fólk leitar í æ ríkari mæli til þeirra aðila, bæði vegna kvilla og ekki síður til að fyrirbyggja sjúkdóma. Talið er að 70--80% Dana nýti sér á einhverjum tíma óhefðbundnar lækningaaðferðir og samkvæmt enska dagblaðinu Daily Telegraph er talið að 13 milljónir Englendinga nýti sér þær árlega. Á Norðurlöndum hafa opinberir aðilar staðið að rannsóknarverkefnum í þessum efnum og samvinnu milli þeirra og viðurkenndu heilbrigðisstéttanna.

Herra forseti. Á dögunum var greint frá því að heilbr.- og trn. hefði tekið fyrir tillöguna. Formaður nefndarinnar var mjög jákvæður og nú spyr ég ráðherrann: Er ekki kominn tími til að taka á í þessum málum og afnema orðið skottulækningar úr lögum?