Ákvæði laga um skottulækningar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:03:38 (5263)

2002-02-27 14:03:38# 127. lþ. 84.2 fundur 397. mál: #A ákvæði laga um skottulækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að þetta er í þriðja eða fjórða sinn á stuttum tíma sem þingið ræðir um óhefðbundnar lækningaaðferðir og skottulækningar, en þó með svolítið öðrum hætti. Hér er verið að tala um þetta á jákvæðan hátt þannig að sú kortlagning sem kemur til með að eiga sér stað á óhefðbundnum lækningaaðferðum geti m.a. leitt til þess að einhverjar þeirra hljóti viðurkenningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem ég held að nauðsynlegt sé að draga hér inn eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur gert vegna þess að þær hafa sannarlega skilað árangri margar hverjar.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að þetta er í annað sinn sem hæstv. ráðherra lýsir yfir stuðningi við þá tillögu sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir er 1. flm. að. Heilbr.- og trn. hlýtur því, að fengnum jákvæðum umsögnum, að afgreiða hana hið fyrsta.