Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:08:41 (5266)

2002-02-27 14:08:41# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Í fjárlagatillögum fyrir árið 2000 var óskað eftir að ráða í 12 stöður heilsugæslulækna. Í tillögum fyrir árið 2001 var óskað eftir 11 stöðum heilsugæslulækna. Niðurstaða var fimm og hálft stöðugildi. Í fjárlagatillögum vegna ársins 2002 er óskað eftir að ráða í 15,5 stöðu heilsugæslulækna en í fjárlögunum eru 37 millj. ætlaðar til að styrkja heilsugæsluna, auka þjónustuna og stytta biðtíma, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ljóst hve mikið af þeirri fjárhæð fer til að fjölga heilsugæslulæknum en varla eru þeir margir miðað við fjárhæðina og önnur verkefni sem hún á að dekka. Þessar upplýsingar koma allar fram í svari heilbrrh. við skriflegri fyrirspurn minni fyrir jól en samkvæmt svarinu er mikill skortur á heilsugæslulæknum og vissum við það fyrir.

Miðað við þær tölur sem fram komu í fyrirspurninni er meðaltal sjúklinga í Reykjavík 2.041 á lækni og hef ég þá tekið með sjálfstætt starfandi heimilislækna í borginni. Í Hafnarfirði er þessi tala 2.092 og í Kópavogi 2.202. Læknaskortur er áþreifanlegur. Ófremdarástand er í Kópavogi og hefur bæjarstjórn beint tilmælum til heilbr.- og trmrh. vegna þessa. Stutt er síðan stjórnarmaður í heilsugæslu Kópavogs upplýsti að 6.000 manns væru án heimilislæknis í Kópavogi. Heilsugæslan í Mjódd sagði upp öllum Kópavogsbúum sem þar voru. Nú segir Kópavogur upp öllum sjúklingum sem búsettir eru utan Kópavogs, sennilega um 2.000 manns, og flyst vandinn þannig til á milli staða á höfuðborgarsvæðinu á meðan viðunandi lausn er ekki í sjónmáli.

Fólk sem hringir á heilsugæslu getur fengið tíma eftir marga daga og álag eykst á Læknavaktina og bráðaþjónustur. Reikna má með að ásókn í sérfræðinga hafi jafnframt aukist því fólk fer milliliðalaust til þeirra. Í skýrslu sem mér barst frá Hafnarfirði í haust hefur skortur á stöðugildum og starfsaðstöðu fyrir Hafnarfjörð og Bessastaðahrepp komið mjög niður á þjónustunni og íbúarnir leita á bráðavaktir í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík auk þess sem frumheilsugæslu er nú í vaxandi mæli sinnt af sérfræðingum á stofu úti í bæ.

Herra forseti. Nú hafa tveir læknar opnað einkarekna læknastofu í Kópavogi. Þar borgar fólk í mánaðargjald, eftir því sem upplýst er, tæplega 3 þús. kr., þ.e. fyrir einstakling á mánuði fyrir þjónustuna.

Herra forseti. Þetta viljum við ekki. Ég trúi ekki að við séum að renna í amerískan farveg og það með frumheilsugæsluna. Ætlum við ekki að standa vörð um þá hugmyndafræði að allir eigi rétt á góðri heilbrigðisþjónustu sem mismuni fólki ekki eftir efnahag? Hvað ætlar hæstv. heilbrrh. að gera í þessum efnum?