Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:20:32 (5271)

2002-02-27 14:20:32# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Hún taldi upp allmikinn fjölda fólks sem vantaði heilsugæslulækni, 6 þús. að mér skilst í höfuðborginni og 2 þús. í Kópavogi. (Gripið fram í.) Nú, 6 þús. í Kópavogi, þess þá heldur, en það segir mér að eitthvað verulega mikið vantar á. Og hv. þm. er á móti þeim nýjungum sem eru að ryðja sér til rúms í þjóðfélaginu, þ.e. að heilsugæslulæknar geti stofnað sínar eigin heilsugæslustöðvar, fullmenntaðir læknar með fullkomin leyfi, og tali um að borga þurfi eitthvert fast mánaðargjald sem mér skilst að sé eins og áskrift að RÚV í dag. Þetta er algjört bannorð í augum hv. þingmanns þó að vitað sé að 6 þús. manns í Kópavogi vantar heilsugæslulækni. Mér finnst þetta mjög einkennileg afstaða til þess sem verið er að reyna að gera.