Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:22:49 (5273)

2002-02-27 14:22:49# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Að flestu leyti er staðið vel að heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem stöðvar eru fyrir hendi. En nefnt var að stöð vantaði í Heima- og Vogahverfi, og ég tek undir fyrirspurn til ráðherra um hana.

Fólki á höfuðborgarsvæðinu fjölgar ótt og þótt starfsfólk stöðvanna sé samviskusamt og vel menntað ræður það ekki við endalausa fjölgun viðskiptavina. Það skiptir máli að grunnmenntun lækna sé slík að þeir laðist yfir í sérgreinina heimilislækningar en líka þarf að tryggja að kjör heimilislækna séu sambærileg við kjör annarra sérgreinalækna og þar með eftirsóknarverð. Að faglegum skilyrðum uppfylltum skiptir rekstrarform í mínum huga afar litlu máli. Aðalatriðið er að laða fólk inn í heimilislækningar og hjúkrunarfræðinga jafnframt inn í heilsugæsluna og þá held ég að málið sé leyst.