Sjálfstætt starfandi sálfræðingar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:32:31 (5277)

2002-02-27 14:32:31# 127. lþ. 84.5 fundur 467. mál: #A sjálfstætt starfandi sálfræðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín fyrirspurn hvort ég hyggist beita mér fyrir því að gerður verði samningur um sjálfstætt starfandi sálfræðinga en sem kunnugt er hefur Tryggingastofnun ríkisins hingað til ekki gert samninga við sálfræðinga.

Staða þessara mála hefur verið töluvert til umræðu innan heilbrigðisþjónustunnar undanfarin ár. Hefur það verið skoðun Tryggingastofnunar ríkisins að lagaheimild hafi skort innan almannatryggingalaganna fyrir samningum af þessum toga þar til þeim var breytt við lok síðasta árs samhliða breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu. Í þessari umræðu hefur einkum verið rætt um starfsemi svokallaðra klínískra sálfræðinga. Ég tel að áðurnefndar lagabreytingar hafi rýmkað möguleikana til að semja um störf þeirrar stéttar.

Ég hef þegar rætt möguleikana á slíkum samningum við formann og fulltrúa mína í samninganefndinni. Tel ég að það hafi verið í anda heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 sem Alþingi samþykkti í maí á síðasta ári. Einkum er ég með í huga að heimila samninga um meðferð á börnum þar sem þörf er fyrir aðstoð klínískra sálfræðinga. Í framhaldi af því mun ég leita eftir auknum fjárlagaheimildum við komandi fjárlagagerð til að unnt verði að gera samninga af þessu tagi. Aðkoma nýrrar stéttar að heilbrigðisþjónustunni með samningum við Tryggingastofnun ríkisins er háð þeim fyrirvara að fjáveitingar fáist til þeirrar auknu þjónustu. Það hefur áður verið leitað eftir því en þá hefur fjármagn ekki fengist. En ég mun halda áfram að beita mér fyrir því og get svarað fyrirspyrjanda jákvætt. Ég mun beita mér fyrir því og hef til þess fullan vilja að leita samninga við klíníska sálfræðinga um afmörkuð verkefni og eins og áður segir að leita eftir heimildum til að standa undir því.