Sjálfstætt starfandi sálfræðingar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:35:40 (5279)

2002-02-27 14:35:40# 127. lþ. 84.5 fundur 467. mál: #A sjálfstætt starfandi sálfræðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Ástu Möller, þessa ágætu fyrirspurn og mig langar að segja að mikilvægi sálfræðiþjónustu dylst engum sem til þekkir.

Lengi hefur verið rætt um hve gagnlegt það væri sjúklingum að heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa nyti starfskrafta sálfræðinga, bæði sjálfstætt starfandi og einnig að þeir yrðu í ríkari mæli ráðnir til starfa t.d. í heilsugæslunni. Það er í anda heilbrigðisáætlunar eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Ég hef lagt fram þáltill. um aukið samstarf fagstétta í heilsugæslunni vegna þess að aðkoma klínískra sálfræðinga þar að mundi gera heimilislæknum auðveldara að vísa sjúklingum sem á þurfa að halda til klínískra sálfræðinga og það er mjög mikil þörf á því.