Sjálfstætt starfandi sálfræðingar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:36:44 (5280)

2002-02-27 14:36:44# 127. lþ. 84.5 fundur 467. mál: #A sjálfstætt starfandi sálfræðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil svo sannarlega þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka þetta upp hér og fagna því að hún skyldi gera það vegna þess að hún á sæti í nefnd sem búin er að fjalla um frv. sem ég hef lagt fram nokkur þing. Hv. þm. hefur verið í nefndinni sem fjallaði um frv. um breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem kveðið er á um viðurkenndar greiðslur til þeirrar stéttar, þ.e. sálfræðinga og félagsráðgjafa vegna sálfræðiþjónustu við börn og ungmenni 18 ára og yngri, og hefur tekið upp ítrekað vegna þeirrar auknu þarfar sem er á þjónustu við þau börn.

Ég fagna sérstaklega þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hæstv. ráðherra um að taka þetta til skoðunar og að ætla til þess fjárveitingu. Fyrir þremur árum var reiknað með að þessi kostnaður næmi um 50 millj. Það væri hægt að sinna allri sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni 18 ára og yngri fyrir þá fjárhæð. En það gleður mig sérstaklega að hv. þm. stjórnarliða hafa tekið þetta mál upp á sína arma, þá er því sjálfsagt borgið.