Sjálfstætt starfandi sálfræðingar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:37:59 (5281)

2002-02-27 14:37:59# 127. lþ. 84.5 fundur 467. mál: #A sjálfstætt starfandi sálfræðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Góð mál fá vonandi yfirleitt góða framgöngu en ég vil fagna svörum hæstv. ráðherra í þessum efnum og ég vil einnig þakka þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni. Ég tel að hér hafi verið brotið í ákveðið blað. Það kemur afdráttarlaus yfirlýsing frá ráðherra um þjónustu sálfræðinga sem hefur verið á sama sviði og geðlækna, en greitt hefur verið niður fyrir geðlækna en ekki sálfræðinga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ákveðið jafnræði sé þarna á milli. Sérstaklega er þetta náttúrlega mikilvægt fyrir einstaklingana sem slíka þjónustu hljóta. Ég fagna þessu og spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti svarað því hvenær hægt er að hefja samninga við sálfræðinga í samræmi við þessa niðurstöðu hans.

Það er alveg ljóst að þetta hjálpar verulega til varðandi þau markmið sem sett eru í heilbrigðisáætlun. Það opnar á að ríkið kaupi þjónustu eftir sínu eigin vali, eftir því hvar heilbrigðisyfirvöld telja að þau fái mest fyrir sína peninga og þrátt fyrir að sálfræðingar og geðlæknar séu á sama sviði er líka alveg ljóst að sálfræðingar hafa ekki t.d. heimild til að ávísa lyfjum. Það gefur því einnig ákveðna möguleika á að bera saman mismunandi form þar sem annars vegar er eingöngu beitt meðferð sem mundi falla undir sameiginlegt svið og hins vegar jafnframt meðferð með lyfjum því að við vitum náttúrlega að kostnaður vegna lyfja hefur farið fram úr öllu sem hægt hefði verið að vænta. Ég tel því að þetta hafi víðari tilvísun en nákvæmlega það sem við vorum að tala um áðan.