Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:50:19 (5287)

2002-02-27 14:50:19# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Öflugasta leiðin til að ná niður óhóflegum lyfjakostnaði í samfélaginu er að efla fyrirbyggjandi aðgerðir. Það skiptir mestu máli að almenningi sé gert kleift að leita eftir þjónustu sjúkraþjálfara áður en vandamál þeirra er komið á það stig að senda þurfi sjúkrabíl eða sjúkraflugvél eftir viðkomandi og gera á honum rándýra aðgerð á hátæknisjúkrahúsi.

Það er til skammar fyrir ráðuneyti heilbrigðismála að ekki skuli hafa verið gengið frá nýjum samningi við sjúkraþjálfara fyrir löngu. Ég veit að starfsemi þeirra víða um land er í slíkri hættu að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda fá hana ekki. Það eru næg verkefni en af því að sjúkraþjálfarar fá ekki nýjan samning þá stefnir í óefni í rekstri þeirra. Á hverjum bitnar það? Jú, á þeim sjúklingum sem eru svo fyrirhyggjusamir að leita eftir bótum meina sinna áður en þau eru komin á það stig eða orðin þess eðlis að þau kosti samfélagið milljónir eða milljónatugi.