Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:54:05 (5290)

2002-02-27 14:54:05# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka þetta mál hér upp og einnig svör ráðherra. Afar miklu máli skiptir að tryggja framtíð þessarar stéttar og menn viti að hverju er stefnt. Það er alveg augljóst af öllum þeim gögnum sem sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa sent okkur að þeir hafa dregist verulega aftur úr í samanburði við aðrar stéttir og við þurfum auðvitað að sjá leiðréttingu á því. En við gerum enga samninga hér eða semjum um kjör, ekki í sölum Alþingis.

Hins vegar hljótum við að taka til umræðu kjör þeirra sjúklinga sem þurfa og eiga að leita til þeirrar stéttar, bæði vegna þess að þeir eiga við alvarlega sjúkdóma að etja og einnig sem fyrirbyggjandi aðgerðir. Ég hafði, virðulegi forseti, fyrir hálfum mánuði síðan beðið um utandagskrárumræðu og sú beiðni hefur verið ítrekuð a.m.k. tvisvar í viku við hæstv. forseta, um það hver staðan verður 1. mars, hver yrði staða þeirra sjúklinga sem leita til sjúkraþjálfara. Og ég mun auðvitað viðhalda þeirri beiðni.