Tilraunaveiðar með gildrum

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:02:52 (5294)

2002-02-27 15:02:52# 127. lþ. 84.11 fundur 401. mál: #A tilraunaveiðar með gildrum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur er svohljóðandi:

Við 1. lið fyrirspurnarinnar um hvaða tilraunir hafi verið gerðar á Íslandsmiðum með veiðar botnfisks í gildrur er því til að svara að ekki liggja fyrir í ráðuneytinu verulega bitastæðar upplýsingar um gildruveiðar á botnfiski. Kemur þar einkum til að slíkar veiðar hafa lítt verið stundaðar hér við land. Þá eru slíkar veiðar ekki háðar sérstökum leyfum ráðuneytisins.

Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Hafrannsóknastofnuninni um gildruveiðar og upplýsti stofnunin að á tímabilinu september 1992 til maí 1995 hafi Hafrannsóknastofnunin gert tíu veiðitilraunir með gildrum á þorski á rannsóknaskipum stofnunarinnar og ýmsum bátum. Er gerð grein fyrir niðurstöðum þessara tilrauna í fjölriti Hafrannsóknastofnunarinnar nr. 49.

Hér má geta þess að Hafrannsóknastofnunin vinnur að undirbúningi tilrauna með sviflaga þorskgildru sem hefur þann kost að snúast eftir straumi þannig að op gildrunnar snýr ávallt undan straumi og vonast stofnunin eftir samstarfi við hagsmunaaðila varðandi þær tilraunir.

Við 2. lið fyrirspurnarinnar, væri 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nægjanleg lagaumgjörð um slíkar tilraunir ef þær yrðu gerðar nú, er svarið eftirfarandi:

Í 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands segir að ráðherra geti veitt leyfi til veiðitilrauna og vísindalegra rannsókna í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ekki er sérstök þörf að beita þessari grein vegna gildruveiða því að öllum skipum sem aflamarksleyfi hafa er heimilt að fara til gildruveiða án sérstakts leyfis ráðuneytisins eða Fiskistofu. Dagabátum og krókaaflamarksbátum er hins vegar ekki heimilt að stunda botnfisksveiðar með gildrum samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, þar sem þessir bátar eru bundnir línu og handfærum eða handfærum eingöngu.

Svar við 3. lið spurningarinnar, um hver séu viðhorf ráðherra til slíkra tilrauna, er svohljóðandi:

Viðhorf til gildruveiða eru jákvæð. Enda þótt ljóst sé að gildruveiðar á þorski séu vart líklegar til að verða þýðingarmikil veiðiaðferð gætu slíkar veiðar orðið árangursríkar á grunnslóð þar sem þekking á staðháttum og atferli þorsks er fyrir hendi. Þá má sérstaklega nefna að gildruveiðar hljóta að teljast hagkvæmar við veiðar á smáþorski til eldis.