Tilraunaveiðar með gildrum

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:05:14 (5295)

2002-02-27 15:05:14# 127. lþ. 84.11 fundur 401. mál: #A tilraunaveiðar með gildrum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri framsýni sem mér fannst birtast í niðurlagsorðum hæstv. ráðherra. Ég er þeirrar skoðunar eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir að gildruveiðar séu veiðiaðferð sem í framtíðinni gæti nýst landsmönnum ákaflega vel. Ég held að í framtíðinni eigi menn að reyna að stefna að því að búa til tækni sem gerir okkur kleift að fara niður í hafið og velja þar tegundir til veiða og líka stærðir. Þannig, herra forseti, verður hægt að nýta stofnana eins vel og fræðilega er unnt frá sjónarhóli veiðitækni. Þess vegna finnst mér gott að heyra að hæstv. ráðherra er ákaflega jákvæður gagnvart þessu.

Herra forseti. Ég held reyndar að við ættum að breyta lögum um stjórnkerfi fiskveiða með þeim hætti að hægt væri að veita mönnum eins konar nýsköpunarkvóta. Í því felst ívilnun handa þeim sem beita sér fyrir nýjungum. Ég tel að þannig væri hægt að hvetja menn til þess að fara í vaxandi mæli út í gildruveiðar, sem fara best með stofnana, og koma með hráefni að landi sem leiðir til hæsts verðs.